30 apríl 2006

Shakira - Tu

Dagurinn í dag hefur verið frekar ömurlegur enda tileinkaður áti, kaffidrykkju(já, ég held barasta að ég sé byrjuð að drekka kaffi..), að taka til og stærðfræði. Jújú, það er svo sem fínt að borða en það er slæmt þegar maður er farinn að fitna svona mikið eins og ég er farin að gera en að taka til og að reyna að læra 30 fokking sannanir og 16 fokking skilgreiningar er ekki gaman, vægast sagt. Og já, mér líkar ekki við stærðfræði og langar mikið, mikið á málabraut. Hafði ekkert að gera áðan (nennti ekki að læra stærðfræðina þ.e.) og fór að kíkja á stúdentspróf málabrautar í ensku og mér fannst nú bara andskoti gaman að skoða það. Þar voru þýðingar úr Shakespeare og það er e-ð sem mig langar að gera, líka að fá að þýða almennilega. Það er bara hlægilegt sem við erum að þýða núna í enskunni enda hefur beinþýdd enska úr íslensku aldrei verið falleg (að taka einhvern í bakaríið - to take someone in the bakery). Og við verðum að beinþýða sem er leiðinlegt! Mér finnst ekkert gaman að skrifa ljóta ensku, mér finnst nefnilega svo andskoti gaman að skrifa ensku og læra ensku. Um daginn var ég jafnvel farin að hugsa að verða prófessor í ensku en þá þarf maður víst að kenna ensku og að kenna er e-ð sem ég hef vægast sagt mjög lítinn áhuga á og enn minni þolinmæði í. En mér finnst bara svo gaman að læra, ákveðna hluti, ekki alla, ekki stærðfræði t.d. Mér fannst stærðfræðin í fyrra skemmtileg, þar var flatarmál og ég skildi það, ég skemmti mér meira að segja í prófinu sjálfu, en reyndar finnst mér gaman í flestum prófum (að undanskildri jarðfræði auðvitað), en þessi stærðfræði núna er bara e-ð kjaftæði sem ég skil ekki baun í bala í. Algebra, það er bara kjaftæði. Reyndar er það örugglega eitt af því rökréttasta sem til er en ég nota bara vinstra heilahvelið mitt meira þegar kemur að lærdómi (held það sé vinstra sem er svona "listrænna", minnir að ég hafi lesið það einhvers staðar, en er þó alls ekki viss.) En svo er ég ekkert listræn fyrir utan það, hehe, nota hægra heilhvelið í allt annað, sem er bæði slæmt og ekki. Betra að vera ekki rökréttur þegar kemur að tungumálum, en ég er hvort eð er ekkert að fara að læra nein það mörg tungumál að er virðist. Finnst ég aldrei hafa tíma í það. Stundum hugsa ég að taka mér tvö ár eftir menntaskóla og fara að safna tungumálum, þá verð ég væntanlega og vonandi talandi fimm tungumál, þar af fjögur reiprennandi, og spurning hvort maður sé þá ekki ansi hæfur til að vera fljótur að pikka upp önnur skyld tungumál. Fara til fjögurra landa og læra tungumálið. Allavega e-s staðar þar sem spænska er mál, langar voðalega til Suður-Ameríku, er líka með hálfgert æði fyrir spænsku þessa dagana, enda búin að vera að hlusta á spænsku lögin hennar Shakiru og ég verð að segja að ég fíla hana bara frekar vel, hún hefur það líka andskoti gott sú manneskja, með 150 í greindavísitölu, talandi fjögur tungumál, semur og framleiðir (?) allt sitt efni sjálf, trúlofuð forsetasyni Argentínu og svo syngur hún líka bara helvíti vel. En já, fleiri lönd sem mig langar til, mig langar að læra hollensku, það er kúl mál. Dönsku langar mig líka að læra, hún er svo lýrisk, bara fallegt mál, held samt að voða fáir séu sammála mér í þessu en ef maður hefur lesið/heyrt texta eftir Benny Andersen þá kannski skilur maður þetta. Já, þá er ég komið með þrjú og vantar eitt í viðbót ef ég ætla að vera sex mánuði í hverju landi og þá fer ég auðvitað til Frakklands, ekki spurning. Svo kem ég heim og á engan pening og byrja kannski með námið, hehe. Svo fer ég örugglega að stofna til fjölskyldu svona um fertugt og jájá, þetta verður skemmtilegt líf maður. Æjj, þetta á örugglega ekkert eftir að rætast, mig langar reyndar ekkert að stofna fjölskyldu um fertugt en ætli það verði ekki svoleiðis ef ég ætla að læra svona mikið og ferðast svona mikið. En já, það er ágætt að eiga sér drauma. Annars er ég búin að eyða of miklum tíma og of mikilli orku í þessa bloggfærslu. Ætla að fara að læra þessar blessuðu reglur og sannanir og skilgreiningar næstu tvo tíma, svo ætla ég að liggja í sjóðheitu froðubaði í svona tvo tíma áður en ég fer bara að sofa, hehe.

Vá, hvað þetta blogg var mikið í belg og biðu, en ég er bara að hugsa um svo mikið þessa dagana, eiginlega of mikið. Mikið í gangi hjá mér e-n veginn, það samt tengist í rauninni engu af því sem ég var að skrifa, ætla heldur ekkert að vera að skrifa það hér, en þurfti bara að fá að bulla smá svona til að tæma hugann fyrir stærðfræðina..

27 apríl 2006

Elliott Smith - Junk Bond Trader

Ýmislegt gerðist í dag. Ég var rekin út úr tíma í fyrsta skipti á ævinni, fór í ökutíma og uppgötvaði að ég verð bara verri og verri með hverjum tímanum, það rann upp fyrir mér hversu innilega mikið er að læra fyrir íslenskuprófið (hef aldrei lært fyrir íslenskupróf, vissi ekki að maður ætti að gera það), ég fattaði líka hvað ég get verið góð, hehe, fór og keypti súkkulaði möffins(formköku) og Sviss Mokka handa vinkonu minni :). Það er gaman að vera góður, ég meira að segja keypti Cappuccino handa móður minni.

Annars hefur það komið í ljós að ekkert verði af afmælinu mínu. Mér finnst það mjög leiðinlegt. En ég verð þá bara að halda e-ð lítið teiti heima hjá mér. Kannski bara Eurovision-partý eða e-ð. En það mun allt koma í ljós eftir þessi blessuðu próf sem munu brátt byrja.

Annars hefði ég ekki viljað hafa þessa bloggfærslu mikið lengri þar sem ég hef ekkert annað að segja en ég ætla að slá botn í hana með eitt stykki brandara í ljósi þess hversu fyndin ég er. Þennan brandara sagði hann faðir minn mér þegar við áttum eitt af okkar "víðfrægu" spjöllum um þrjúleitið e-a nóttina og mér finnst hann fyndinn, ef e-r fattar hann ekki þá er það ekki mitt mál, hehe. Annars snýst þetta um þjóðir sem áttu að skrifa um fílinn, þ.e. dýrið.
Þjóðverjinn skrifaði: Eine kurze Eingleidung zum Studium des Lebens des Elefantes.
Englendingurinn skrifaði: Hunting the Elephant and how I shot my first one.
Daninn skrifaði: Elefanten på hundrede måder til frokost.
Frakkinn skrifaði: L'elefant et son amour.
Ítalinn skrifaði: Elefante nella politica.
Íslendingurinn skrifaði: Hvordan man drikker en Elefant (lesið með mjög íslenskum hreim.)
Ameríkaninn skrifaði: How to make the elefant bigger and better.
Svíinn skrifaði: Elefantens sociala problem.
Norðmaðurinn skrifaði: Norge og vi Normenn.

p.s. ábyrgist engar málfræði og/eða stafsetningavillur..

25 apríl 2006

Suede - Everything Will Flow

Ég er að fara að skíta á mig á(í) þessu stúdentsprófi í félagsfræði á morgun...!

22 apríl 2006

Trabant - Maria

Í dag var ég dugleg.

Á morgun fæ ég harðsperrur.

Í gær hlustaði ég á tvöfaldan disk með Monty Python sem er svo gamall að hann kostaði aðeins 249 kr. En hann var samt snilld og sérstaklega 'Election Special' og 'Novel Writing (Live From Wessex)'. Ég þyrfti að sjá þetta á spólu. Ef þetta var fyndið á geisladisk er þetta örugglega þrisvar sinnum fyndnara þegar maður sér þetta.

Ég hef komist að því að það verður allt of mikið að gera eftir prófin. Ég ætlaði að halda stórt og mikið afmæli auk tveggja vinkvenna minna og bjóða fullt af fólki og hafa mikið gaman. Svo stefnir á að verði líka tebó, annað afmælispartý, einhver 3.bekkjar gjörningur, mögulega kórpartý, annað afmælispartý og já, held þetta sé komið. Þetta er bara of mikið. Ég er reyndar alveg að nenna þessu, en ég vil bara ekki að e-ð af þessu stangist á við afmælið mitt, þ.e. afmælisveisluna mína sem ég vona innilega að verði e-ð úr. En jájá, þetta á allt saman eftir að koma í ljós.

Það er erfitt að fá vinnu þegar maður er að verða sautján ára. Ég er búin að sækja um á þokkalega mörgum stöðum og hef ekert heyrt enn, ég er heldur ekkert mjög bjartsýn á að fá vinnu. Það yrði líka innilega dæmigert ef ég fengi ekki vinnu. Einmitt þegar mig sárvantar pjéning. Ég þarf líka að sjá e-ð fyrir mér sjálf úti á Ítalíu og hvernig á ég að geta gert það ef ég verð blönk. Mér líst bara ekkert á þetta. Ef einhver er að leita að duglegum vinnukrafti og borgar ágætlega má sá hinn sami endilega láta mig vita, ég er mjög fjölhæf. (Vinsamlegast túlkið þetta ekki vitlaust.)

21 apríl 2006

David Bowie - Life on Mars

Ég held að ég sé einhverfasta manneskjan í húsinu mínu akkúrat núna. Sit ein niðri í stofu að blogga, lesa Bítlatexta og horfa á History of Violence. Uppi er í gangi afmæli, 12 ungir herramenn fimmtán ára að aldri að halda upp á afmæli litla bróður míns. Mér finnst þetta svo sem ágætt, ég fæ pizzu og góðan mat. En ég var að hugsa með þessa drengi þegar þeir hlupu upp úr sjónvarpsherberginu gríðarlega spenntir þegar kallað var í þá vegna köku. Verða strákar ekki alltaf strákar? Ég man eftir þessu úr Friends þegar Ross mátaði svartan leðurjakka og aftan á stóð með glæsilegum glimmerstöfum: "Boys will be boys." Ég held bara að þetta sé satt. Ég man eftir þessum drengjum þegar þeir voru tíu ára, sömu drengirnir, og þeir höguðu sér alveg eins. Alveg ótrúlega æstir þegar kakan er borin á borð. Einnig er gríðarlegur æsingur yfir spólum og nammi. Karlmönnum finnst líka alltaf græjum og soleiðis hlutum, bílum og svona. En það er svo sem bara gaman að þessu. Maður á að halda í barnið innra með sér, hehe. Mér finnst allavega gaman að haga mér mjög barnalega inn á milli.

Stundum, þegar ég er einhverf, þá tek ég svona próf á netinu. Og það kemur alltaf e-ð gott úr þessum svokölluðu prófum eða “testum”. Reyndar um daginn var ég að taka einhver Bítlatest og þar kom í ljós að ég væri Ringo Starr. Einhvern veginn tók ég þessu ekki alveg nógu vel þar sem hann var ekki beint fríðasta manneskja í heimi, ekki eins og ég sé það e-ð heldur, hehe. En hann var drullugóður trommari, maður kemst að því ef maður hlustar á hann og hlustar á fólk sem veit e-ð um trommur :P. Eitt sem hressti mig við og lét mig ekki taka mark á þessu testi (ekki að ég taki yfirleitt mark á svona testum) var að ég er gjörsamlega taktlaus, það er ekki fyndið hvað ég er léleg í takti, sem er ein ástæða fyrir því hvað ég er léleg að kenna sjálfri mér að spila á píanó. En hann er svona svolítið sloppy, en hann er það líka á réttum stöðum. Hann væri góður að spila Tunglskinssónötuna (þekki manneskju sem gerði fjórar villur í þessu orði) því hún á að vera svona sloppy, eða ekki sloppy heldur á takturinn að vera svona æjj, ég kann ekkert að útskýra það, en það er það sem gerir lagið flott. Ég tala svolítið mikið um píanó þessa dagana en það er bara því píanó er snilld.

Skólinn byrjaður aftur og sumarið komið. Ég fann allavega fyrir þvi að íslenska sumarið var komið þegar sumardagurinn byrjaði á frosti um nóttina, um daginn var svo einhver sól og um kvöldið lét rigningin sjá sig og ég fagnaði með að fara út að borða á Kínahofinu, sem var reyndar mjög gott. En já, til hamingju með íslenska sumarið :).

18 apríl 2006

Gorillaz - El Manana

Aldrei að geyma hálfétið páskaegg í gluggakistu..

17 apríl 2006

Pink Floyd - Hey You

Byrjum á fyrsta hluta þessa bloggs. Ég hata að hlaupa. Að fara út að hlaupa er ekki góð skemmtun. Ég fór áðan út að hlaupa og það var bara hundleiðinlegt, ég var farin að gefast upp á þessu bara. En hvað gerir maður ekki til að hreyfa sig. Mér finnst samt að hreyfing eigi að vera skemmtileg. En ég bara gat ekkert annað gert í dag nema hlaupið því ég vaknaði svo seint að það tók því ekki að fara í Baðhúsið. Handboltinn er heldur ekki að gera sig þessa dagana, mér finnst nefnilega gaman í handbolta þannig það væri ráð til að hreyfa sig. Ég bara get ekki hlaupið og ekki verið að gera neitt annað. Ekki einu sinni tónlist hjálpar þar. Í handboltanum er maður að reyna að vinna boltann, reyna að skora og svona, það er gaman en þegar maður er að hlaupa þá er maður bara að hreyfa fæturna. Þessar kvartanir í garð útihlaups gætu einnig einfaldlega verið vegna þess í hversu einstaklega lélegu formi ég er. Einhvers staðar las ég þó að kynlíf væri besta hreyfingin, þá er maður líka að fá meira út úr hreyfingunni en ella. Og er það þá ekki bara málið, fyrir svona manneskju eins og mig sem vantar ókeypis hreyfingu og nennir ekki út að hlaupa? Finna sér einhvern til að "hreyfa" sig með? Jú, veistu, ég held það bara.

En að öðrum hluta þessa bloggs. Ég er búin að vera mjög einhverf í páskafríinu og verið mikið með sjálfri mér og haft mikinn tíma til að hugsa. Hugsa um allskonar hluti. Einnig komst ég í svolitla svona analyseringu á sjálfri mér. Það var ansi fróðlegt. Þeir sem þekkja mig vita að ég er með fullkomnunaráráttu. Ég hef þó tekið eftir því að þessi fullkomnunarárátta er svolítið "karlmannleg". Jú, einmitt vegna þess að hún getur bara einbeitt sér að einum hlut í einu. Ég persónulega er alls ekki þannig, ég verð að vera að gera allt í einu, enda er ég tvíburi í stjörnumerkinu. En þessi fullkomnunarárátta hefur þetta páskafríið snúið sér að glósum. Jarðfræðiglósurnar mínar eru alveg frekar góðar, í bæði útliti og innihaldi. Þetta er vitanlega nokkuð ágætt en stundum vildi ég að fullkomnunaráráttan gæti líka snúist til heilbrigð mataræðis og útlits, hehe. Þetta blessaða páskafrí hefur mér verið svo nákvæmlega sama um þetta tvennt, mataræði og útlit. Ég er búin að vera að meygla heima hjá mér í súkkulaði og ís og alls konar ruslfæði og ég fór á náttbuxunum á Subway. (Þetta voru samt mjög flottar náttbuxur.) En annars finnst mér lítið að því að ég sé með fullkomnunaráráttu sem snýst að náminu. Samt ekki beint að náminu í heildina litið því þá mundi ég nenna að læra alltaf heima og þá væri ég löngubúin að kaupa sögubókina, sem virðist ekki vera til neins staðar, sem ég á að vera löngubúin að kaupa.

Og að þriðja hluta þessa bloggs. Mig langar að byrja aftur að æfa á píanó. Tímasetning eða hvað? "Tímabilinu" alveg að ljúka og ég að fara til Ítalíu eftir fimm mánuði. En mig langar það samt svo. Ég er búin að spila á píanóið í svona þrjá tíma í dag og álíka marga í gær. Ég er meira að segja að reyna að kenna mér þrjú ný lög. Öll eftir Chopin en mér finnst hann líka fallegastur. En hann er svolítið mkið fyrir bassa sem er ekki gerður fyrir fingrastutt fólk en mér er alveg sama, hann samdi svo flott lög. En ég er svo úr æfingu, hef ekki spilað á píanóið í svona ár og ekki æft síðan í níunda bekk. En jájá, það verður kannski hægt þegar ég kem heim frá Ítalíunni. En mig langar líka að kunn á gítar. Æjj, mig langar of mikið. Það er nefnilega andskoti mikið vandamál að hafa of mikla möguleika. Lífið eins og það er í dag býður upp á allt. Þess vegna langar mig svona mikið. En já, ég nenni ekki að skrifa meira í bili.

15 apríl 2006

Queen - Don't Stop Me Now

Mig langar...

...að læra ítölsku, frönsku, þýsku, dönsku og latínu (m.a.)
...að fara til Ítalíu
...að vera í sólbaði
...að eiga úr sem stoppar tímann eins og Bernharð átti
...að vera góð í stærðfræði
...að hafa lengra páskafrí
...að hafa fylgst með í jarðfræði
...að hreyfa mig
...að nenna að hreyfa mig
...að geta vaknað snemma
...að ferðast til útlanda
...að ná öllum prófunum
...að læra ensku í háskóla
...að læra sænsku almennilega
...að læra á bíl
...að taka bílprófið mitt í ár
... í þig

Mig langar ekki...

...að borða páskaegg á morgun
...að hafa borðað svona mikið í páskafríinu
...að hafa lært svona lítið í páskafríinu
...að þurfa að læra svona mikið af stærðfræði
...að taka svona mörg próf
...að læra fyrir prófin
...að falla á einhverjum prófum
...að taka úr þvottavélinni
...að vera í svona miklum tímaþrengslum
...að tíminn líði svona hratt
...að það sé svona lítið eftir að skólanum
...að sumarið sé svona stutt
...að skrifa meira í þessu bloggi
... í þig

Jeff Buckley - I Want Someone Badly (With Shudder to Think)

Jæja, það er bara föstudagurinn langi í dag. Hann er reyndar alveg að verða búinn en það er sama.
Annars hefur dagurinn í dag einkennst af skemmtilegasta fagi í heimi, jú, einmitt jarðfræði. Ef jarðfræði er ekki yndisleg þá veit ég ekki hvað. Allavega finnst mér fátt skemmtilegra.
Áðan var ég í matarboði. Þar var fullorðið fólk og lítið fólk. Litla fólkið fékk hamborgara og páskaegg og var í play station, eitthvað leist mér ekki nógu vel á þetta þannig ég var með fullorðna fólkinu í hrognunum, gæsa- og andalifrinni og nautasteikinni, ég var reyndar ekki í kampavíninu, hvítvíninu, rauðvíninu og koníakinu (já það var mikið drukkið) en maður fékk svona sopa og sopa. En djöfulli held ég að fullorðna fólkið hafi verið að fíla að hafa tæplega 17 ára stelpukjána þarna með þeim, hehe.
Ég er annars geðveikt gáfuð núna, sit hérna í mykrinu inni í tölvuherbergi að horfa á The Sixth Sense, sem og blogga, á msn og læra. Alltaf er maður svo fjölhæfur, ha?
En já, gaman að því hvað maður er ógeðslega ekki einhverfur alltaf. En annars fékk ég komment á síðasta bloggi sem hljóðaði á þann veg að ég ætti að fá mér gaur. Já, er það ekki bara málið. Any takers?

p.s. Ég stend í þeirri trú að þetta blogg hafi gefið orðinu kaldhæðni dýpri og breiðari merkingu.

12 apríl 2006

The Verve - Bittersweet Symphony

Ég held að páskafríið sé eitt ljúfsárasta fríið því það er eiginlega ekkert frí, bara svona 'undercover' frí. Jú, því á eftir páskafríi koma blessuð prófin, og hvað á maður þá ekki að gera nema læra fyrir prófin? Og mér finnst það nú sjaldnast frí þegar maður þarf að læra fyrir próf. En þó getur maður sofið út í fríinu og borðað yfir sig og gert annað "fríarlegt". Ég hef þó ekki notað þetta blessaða frí sem skyldi enda búin að eyða mestum hluta þess sofandi. Ég hafði líka ekki sofið almennilega í svona þrjá mánuði þannig ég varð að taka svona fyrstu daga frísins til að rétta af þetta svefnleysi. Enda er ég líka komið í fullkomið jafnvægi núna, klukkan orðin sjö, ég er ekkert þreytt og samt hef ég ekki fengið mér neinn síðdegisblund. Frábært.
Fór í ökutíma í morgun. Fyrsti ökutíminn minn. Það var æðislegt. Það er svo ótrúlega gaman að keyra. Mér fannst ég bara standa mig ágætlega, versta var bara hvað maður þurfti að fara hægt, kennarinn þurfti ansi oft að segja mér að slaka aðeins á bensíninu, heh. En ég var samt ekki að keyra neitt hratt, við vorum bara í þrjátíu götum allan tímann. En ég er samt ótrúlega sátt við þennan fyrsta tíma og hlakka óendanlega til hins næsta. Þetta verður frábært. Jeij.
Það er líka eitthvað svo mikið sumarskap komið í mig. Sólin skín og mér er skítsama þó það sé skítkalt úti því ég er bara inni að horfa á gluggaveðrið. Svo var ég líka að skoða myndir frá því í fyrrasumar og allir voða brúnir/rauðir. Bróðir minn, mamma og frændfólk var brúna fólkið en ég og faðir minn vorum rauða fólkið. Helvítis tómatar alltaf. Nei okei, ég er aðeins að ýkja, en rauð vorum við miðað við hina. En ástríðan mín kallar, þ.e.a.s jarðfræði.

11 apríl 2006

The Beatles - A Day in the Life

Já, í dag var dagurinn sem ég fylltist innblástri til að stofna til nýrrar bloggsíðu. Á hinni er ég komin með ansi mikla leið (mikinn leiða?) og fannst ég þurfa smá tilbreytingu. Miklar breytingar eiga sér stað núna og má þar t.d. nefna:
1. Ég ætla að vera dugleg á morgun og vonandi áfram.
2. Mínu fyrsta ári í menntaskóla (meira að segja Menntaskólanum) er að ljúka og er það mikill áfangi.
3. Það styttist óðum í Ítalíuför mína og fylgja undirbúning hennar fjölmargar ákvarðanir.
Allt fullgildar ástæður fyrir nýju bloggi, hehe. Mig hefur líka alltaf langað í svona .blogspot.com blogg, hefur alltaf fundist það svo kúl. Svona eins og að drekka kaffi, það hefur mér líka alltaf fundist kúl. En það sem mér finnst ekki kúl er orðið kúl. Það er íslenska og viðurkennt í íslensku orðabókinni, sem og fokk og sjitt. Mér er svo sem nokkuð sama um þetta en til er fullt af íslenskufræðingum sem endalaust kvarta undan málnotkun unglinga en samt viðurkenna þeir þetta með því að lögleiða orðin inn í Íslensku Orðabókina. Hvernig geta þeir svo haldið áfram að kvarta? Hefur oft pirrað mig.
En svo ég tali nú aðeins um Ítalíuförina þá er ég eiginlega komin með fjölskyldur en ég á þó eftir að ákveða hvort ég vilji fara þangað. Hef líkast til aldrei staðið frammi fyrir svona erfiðri ákvörðun. En ætli það tengist ekki allt því að fullorðnast. Djöfulli er ég e-ð formleg. En annars held ég það sé komin tími á að slá botn í þessa fyrstu bloggfærslu þessa ágæta bloggs og ég vona bara að ég nenni að halda þessu áfram.

- Katrín